Fréttir eða Ummæli 24 April 2014

Almennt &Útilífsskóli 2013 Birna | 16 ágú 2013

Myndir og óskilamunir

Jæja, þá eru myndirnar loksins að detta almennilega inn og verða þær vonandi allar komnar inn á mánudaginn.

Hægt er að skoða þær með því að smella á „myndir“ hér til hægri, ekki uppi.

Það er mismikið af myndum frá námskeiðum, enda gátum við ekki alltaf verið með vélina upp vegna aðstæðna. Vonandi finna allir mynd af sér til minningar um skemmtilegt námskeið :)

 

Einnig er óttalegt magn af óskilamunum eftir sumarið. Hægt er að kíkja á þá mánudaginn n.k., 19. ágúst milli 10-16 og þriðjudaginn 20. ágúst milli 10 – 16.

Þeir sem hafa merkt fötin með símanúmeri geta átt von á hringingu á næstu vikum þegar við förum yfir allt. Allir óskilamunir verða svo einnig uppi við á kynningardegi Hraunbúa, 2. september milli 17-19. Eftir það fer allt sem er afgangs til Rauða Krossins.

 

Takk allir útilífsskátar, fyrir frábært sumar!

Skátakveðja

Birna, skólastjóri Útilífsskóla Hraunbúa

 

 

Útilífsskóli 2013 &Námskeið 4 Birna | 16 ágú 2013

Fjórða vika – dagur 5

Jæja, þá er vikan búin. Tvö stórskemmtileg námskeið með hressum krökkum fóru í Hvaleyrarvatn í dag og léku sér saman. Þar var farið á kanó, í skógarferð, leitað að Móra, byggðir sandkastalar, búið til skemmtiatriði og lærðir skátasöngvar.

Í hádeginu fengu allir pulsur sem hurfu ofan í alla með bestu lyst. Í lok dagsins var svo stutt kvöldvaka þar sem skemmtiatriðin voru sýnd og fleiri söngvar sungnir.

 

Myndirnar eru loks að detta inn og má sjá þær með því að ýta á „myndir“ hér til hægri.

 

Takk fyrir vikuna!

 

Útilífsskóli 2013 &Námskeið 4 Birna | 15 ágú 2013

Fjórða vika – dagur 4

Í dag var skemmtilegt, þrátt fyrir mikla rigningaskúri. Í byrjun dags var farið í ratleik. Útilífsskólaskátarnir fylgdu vísbendingum sem leiddi þau alla leið í Hellisgerði og í fjöruna en grallararnir héldu sig á Víðistaðatúni.

Á hverjum stað þurfti svo að leysa einfalt verkefni og svo var vísbending á næsta stað.

Eftir hádegi fóru grallararnir í póstaleik þar sem þeir hituðu núðlur á prímus, föndruðu andlit á þæfða steininn, lærðu á íslenska fánann og fóru í leiki.

Útilífsskátarnir fóru í fjársjóðsleit eftir hádegi þar sem ýmsar þrautir voru leystar í skiptum fyrir bút úr fjársjóðskorti. Þegar kortið var heilt var farið að leita að fjársjóðnum, en í honum voru sykurpúðar.

 

Við minnum á að á morgun er dagsferð á Hvaleyrarvatn. Í hádeginu verða grillaðar pulsur en krakkarnir þurfa að koma með síðdegishressingu. Við verðum bara úti svo það er mikilvægt að vera vel klæddur!

Sækja á börnin á Hvaleyrarvatn.

Sjáumst!

Útilífsskóli 2013 &Námskeið 4 Birna | 14 ágú 2013

Fjórða vika – dagar 1 – 3

Jæja, þá er fjórða og síðasta vika Útilífsskólans rétt hálfnuð og hefur verið mikið fjör í Hraunbyrgi. Nú eru tvö full námskeið í gangi, grallarar á aldrinu 6-7 ára og útilífsskátar á aldrinum 8-12 ára.

Á mánudaginn hófst fjörið en eftir flokkaskiptingu var skemmtilegur póstaleikur. Í honum var poppað popp yfir eldi, klifrað í klifurveggnum, farið í kims leiki og hitað galdraseyði. Í lok dags voru allir vígðir í Útilífsskólann og fengu klút og hnút með nafni.

Á þriðjudag fóru grallararnir í fjársjóðsleit þar sem þeir leystu ýmis verkefni í skiptum fyrir bút úr fjársjóðskorti. Á meðan fóru útilífsskátarnir í Hellisgerði og skemmtu sér konunglega þar.

Í dag var svo farið í fjöruferðir. Grallararnir röltu saman í fjöru hérna rétt hjá en útilífsskátarnir hjóluðu lengra og fóru í tvær fjörur sem voru skoðaðar hátt og lágt þrátt fyrir leiðindaveður. Allir krakkarnir völdu stein í fjörunni og þegar til baka var komið var farið í það að þæfa utan um steininn. Á morgun verður svo föndrað meira með steininn.

Takk fyrir daginn!

Sjáumst á morgun

Útilífsskóli 2013 &Námskeið 3 Birna | 12 júl 2013

Þriðja vika – dagar 4 og 5

Í lok vikunnar var útilega á Hvaleyrarvatni. Allur hópurinn hjólaði saman á Hvaleyrarvatn á fimmtudagsmorgun og gekk það rosalega vel. Þegar þangað var komið var borðaður hádegismatur og haldið í dagskrá.

Í dagskránni eftir hádegi var farið á kanó, æfðir skátasöngvar og samin skemmtiatriði, leitað að Móra í skóginum og byggðir sandkastalar í fjörunni. Í kaffinu var svo afmæliskaka þar sem ein skátastelpa átti afmæli og kom með köku handa öllum :)

Frá dagskrárlokum og fram að mat var svo frjáls tími þar sem leikið var í vatninu, farið í leiki og komið sér fyrir í tjöldum.

Í kvöldmat voru grillaðar pulsur og haldin kvöldvaka. Á kvöldvökunni var fullt af hressum skátalögum sungin og sýndu flokkarnir alveg frábær skemmtiatriði. Eftir heitt kakó héldu svo allir í háttinn, enda þreyttir skátar eftir góðan dag í fínu veðri.

Á föstudagsmorgun vöknuðu flestir við heljarinnar rigningadembur sem skullu á tjöldunum og var bara kózý að sitja í tjaldinu, ganga frá og borða morgunmat.

Svo var haldið í meiri dagskrá þar sem farið var á kanó aftur, grillað hike-brauð, farið í ljósmyndakeppni og í kjarnorkuleikinn.

Eftir hádegi var svo klárað að ganga frá og hjólað af stað heim.

 

Takk fyrir vikuna krakkar!

Myndir koma bráðlega inn.

Útilífsskóli 2013 &Námskeið 3 Birna | 11 júl 2013

Þriðja vika – dagur 3

Dagurinn í dag var flottur. Morguninn hófst með ratleik þar sem flokkarnir fengu vísbendingu sem leiddi þá áfram á næstu staði. Vísbendingarnar fóru með flokkana alla leið í Hellisgerði og niðrí fjöru og lá leiðin þaðan aftur í skátaheimilið.

Eftir hádegismat var svo hin eina sanna fjársjóðsleit. Að venju leystu flokkarnir ýmsi verkefni sem skilaði þeim bút úr fjársjóðskorti. Þegar 6 fjársjóðsbútar voru komnir voru þeir settir saman og haldið af stað í leit að fjársjóðnum sjálfum. Í honum reyndust vera sykurpúðar sem allir grilluðu með bestu lyst í lok dagsins.

Takk fyrir daginn!

Útilífsskóli 2013 &Námskeið 3 Birna | 09 júl 2013

Þriðja vika – dagur 2

Í dag fór allur hópurinn í fjöruferð. Í fjörunni var leikið og steinar valdir í steinakalla.

Eftir hádegi var svo póstaleikur þar sem steinakallarnir voru límdir saman og útilífsskátarnir fengu að klifra í klifurveggnum, lærðu skátadulmálið, lærðu að súrra og  um íslenska fánann.

Í lok dagsins fóru allir glaðir heim, enda ekki annað hægt eftir svona fínan dag með góðu veðri!

 

Sjáumst á morgun!

Útilífsskóli 2013 &Námskeið 3 Birna | 08 júl 2013

Þriðja vika – dagur 1

Þriðja námskeið Útilífsskólans hófst með miklu fjöri í morgun þegar hressir og kátir krakkar mættu tilbúnir í vikuna.

Að venju var skipt í flokka, flokkarnir völdu sér nafn og bjuggu til flokksfána. Eftir hádegi var svo póstaleikur þar sem flokkarnir fóru á milli stöðva og gerðu ýmislegt. Meðal annars var farið í kassaklifur, búið til galdraseyði, poppað popp yfir eldi, farið í kims og aðra skátaleiki.

Í lok dagsins var svo vígsla þar sem allir voru vígðir inn í Útilífsskólann og fengu bláan klút með leðurhnút.

Á morgun er svo fjöruferð svo þá er gott að koma með stígvél og nesti sem hægt er að borða á leiðinni.

 

Takk fyrir daginn!

Útilífsskóli 2013 &Námskeið 2 Birna | 08 júl 2013

Önnur vika – dagur 5

Jæja, þá er vikan búin og er hún nú búin að vera sérdeilis góð.

Þegar allir krakkarnir voru mætti í morgun var stigið upp í rútu og haldið af stað á Hvaleyrarvatn.  Þar var ýmis dagskrá í boði sem allir fengu að spreyta sig í. Til dæmis var farið á kanó, sandkastalar byggðir, leitað að Móra, farið í skógarferð og skátasöngvar og skemmtiatriði æfð.

Í hádeginu fengu svo allir grillaðar pulsur. Þá byrjaði einnig rigningin að sýna sig en við létum það ekki á okkur fá og héldum okkar striki, í regnfötum.

En svo versnaði veðrið og fóru allir að blotna mikið. Um þrjúleytið var hringt í foreldra og þeir beðnir um að sækja snemma, enda ekki mikið eftir. Kl. 16 voru svo allir farnir blautir en sáttir heim.

Myndirnar eru loksins að detta inn og má ýta á „myndir“ hér til hægri til þess að skoða þær.

Takk fyrir vikuna!

Útilífsskóli 2013 &Námskeið 2 Birna | 04 júl 2013

Önnur vika – dagur 4

Í dag fóru grallarar í ratleik um Víðistaðatún. Í ratleiknum fengu þau vísbendingar sem leiddu þau áfram að næsta stað þar sem þurfti að vinna í ýmsum verkefnum.

Útilífsskátarnir fóru einnig í ratleik en þeirra ratleikur fór með þau alla leiðina í Hellisgerði og að fjörunni en þau þurftu einnig að vinna ýmis verkefni áður en þau gætu fylgt vísbendingunni að næsta stað.

Eftir hádegi fóru svo útilífsskátarnir í fjársjóðsleitina miklu. Þar leystu þau ýmsar þrautir í skiptum fyrir bút af fjársjóðskorti. Þegar allir 6 bitarnir voru komnir var kortið sett saman og haldið af stað á stað X, þar sem fjársjóðurinn var falinn. Í fjársjóðnum voru sykurpúðar sem allir grilluðu með bestu lyst.

Grallarnir máluðu steinakallana sína, hituðu núðlur á prímusi, lærðu að flagga og fóru í víkingakubb eftir hádegi.

Á morgun förum við svo á Hvaleyrarvatn og verðum þar allan daginn. Mæting er í Hraunbyrgi en sækja á alla milli 16 og 17 á Hvaleyrarvatn.

 

Einnig bendum við á að myndirnar eru loksins byrjaðar að detta inn á má finna tengil á þær með því að smella á „myndir“ hér til hægri.

Næsta síða »